Færsluflokkur: Dægurmál

Rannsókn bankahrunsins

Umsvif íslensku bankanna undanfarinn áratug hafa byggst á svokölluðu Carry Trade.


Carry Trade er það, að taka að láni fé í landi þar sem vextir eru afar lágir (t.d. 0,2% í Japan og Sviss) og endurlána þá til lands þar sem vextir eru háir, t.d. til Íslands með u.þ.b. 18% vöxtum. Vegna vaxtamunarins í hinum tveimur löndum myndast fyrst um sinn mikill hagnaður. Gallinn er hins vegar sá, að þessi viðskipti ganga bara í ákveðinn tíma, svo enda þau alltaf með skelfingu.

Íslensku bankarnir fengu sín lán erlendis til fáeinna ára en endurlánuðu á Íslandi til langs tíma, þeir þurftu því sífellt að geta fengið ný skammtímalán erlendis til að fjármagna langtímalánin á Íslandi. Dæmið gengur upp meðan endurfjármögnun fæst, en að meðaltali er fjármagnskreppa í heiminum með ca. 10 ára millibili og þá er erfitt að fá endurfjármögnun. U.þ.b. ári fyrir bankahrunið var orðið ljóst að íslensku bankarnir gætu ekki endurfjármagnað sig, enda sagði aðaleigandi Glitnis þá að það jafngilti gjaldþroti bankans, og reyndist hann sannspár.

Carry Trade hrynur líka ef gengi íslensku krónunnar lækkar því þá verða endurgreiðslurnar á íslensku lánunum verðminni og duga ekki til að greiða upphaflegu erlendu lánin. Íslensku bankarnir voru því alltaf háðir því að seðlabankinn héldi uppi gengi krónunnar með háum stýrivöxtum. Carry Trade fer einnig á hliðina ef vextir hækka í erlenda lánalandinu, eða ef þeir lækka á Íslandi, og þannig mætti lengi telja. Af þessu má ljóst vera að Carry Trade gengur í efnahagsuppsveiflu en hrynur þegar kemur að efnahagssamdráttarskeiði en þau koma að meðaltali sem fyrr segir á 10 ára fresti.

En þeir sem voru að stunda Carry Trade eru ekki á flæðiskeri staddir þó að bankaviðskipti þeirra fari á hliðina með ómældum hörmungum fyrir þjóðfélagið. Lánsféð úr bönkunum er flutt yfir í dótturfélög eigenda bankanna. Einnig eru búin til félög, verðinu komið upp með bókhalds- og viðskiptabrellum og þessi félög seld lífeyrissjóðum og almenningi í fjármálaráðgjöf hjá bönkunum. Þegar ljóst er orðið að allt er að fara á hausinn, og skrifað um það í öllum erlendum blöðum (íslenskur almenningur veit það þó ekki því að eigendur bankanna stjórna fjölmiðlunum hér) þá er áfram hægt að græða með því að taka skortstöðu gegn íslenska hagkerfinu. Þannig tapaði einn eigenda Kaupþings 50 miljörðum á hlutabréfunum sínum í Kaupþingi en taldi sig samtímis hafa grætt 188 milljarða á skortstöðu gegn íslensku krónunni. M.ö.o., græddi vel á því að leggja allt í rúst. Að geta stundað Carry Trade krefst þess að menn eigi eitthvað svolítið af peningum, hafi góða aðstöðu, þokkalega meðalgreind, en fyrst og fremst krefst það algers samviskuleysis gagnvart því hvað verið er að gera samlöndum sínum.

Skuldir ríkisins (sem var skuldlaust fyrir skömmu) eru nú 2.600 miljarðar. Óvíst er hvers virði eignirnar eru á móti þessum skuldum, en í albesta lagi verður nettó skuld ríkisins vel yfir 1.000 miljarðar. Það er vonlaust að skilja þessa tölu nema að hún sé sett í samhengi við eitthvað annað. Miðað við höfðatölu þá er þessi skuldastaða ríkissjóðs helmingi verri heldur en Finnar upplifðu í sinni kreppu þegar Rússlandsmarkaður hrundi. Hún er a.m.k. tíu sinnum verri en lánsfjárþörf sænska ríkisins varð í sænsku bankakreppunni. Kaliforníuríki er talið vera gjaldþrota, þar eru starfsmenn sendir reglulega heim í launalaus leyfi; skuldastaða íslenska ríkisins er tíu sinnum verri heldur en sú kaliforníska. Afborganir af lánum ríkissjóðs bara á þessu ári eru taldar verða 125 miljarðar, eða meira en ein Kárahnjúkavirkjun. Augljóslega verður strax að grípa til fumlausra aðgerða ef það á að vera nokkur von til þess að vinna sig út úr vandanum.

Lítum á hvað gert hefur verið. Búið er að skera niður yfirvinnu hjá Reykjavíkurborg, þar á að spara einn miljarð króna. Það þyrfti að halda þessu yfirvinnubanni á alla starfsmenn Reykjavíkurborgar í meira en 100 ár til að dekka yfirdráttarheimild bara hjá einum viðskiptavini gamla Kaupþings. Mikill niðurskurður er boðaður í heilbrigðisþjónustunni, þar á að spara 5 til 6 miljarða á ári. Það þyrfti að halda þessum niðurskurði í 30 ár bara til þess að Kaupþing geti greitt út til eins manns kröfu vegna skortstöðutöku gegn íslensku krónunni.

Augljóslega er ekki hægt að vinna sig út úr vandanum með því að almenningur (sem er á hausnum nú þegar) herði sultarólina, upphæðirnar sem til þarf eru bara til í heimi auðmannanna. Slóð þeirra er vörðuð lögbrotum, og það ætti að vera hægur vandi að ná fénu aftur. En erum við í stakk búin til að vinna þá vinnu sjálf, Íslendingar? Svarið er "Nei".

Lán útrásarvíkinganna samsvara því að u.þ.b. 150 milljónir hafi verið teknar að láni á hverja einustu fjölskyldu í landinu. Enginn máttur fær staðist það vald sem fylgir slíku auðmagni. Það svarar til þúsunda asna klyfjuðum gulli. Ef 1% af lánum útrásarvíkinganna hefðu verið notuð til að liðka fyrir og styrkja stöðu þeirra á Íslandi, þá hefðu þeir getað greitt 1.400 manns 100 milljónir hverjum. Ekkert samfélag fær staðist slíkt. Greiðslurnar eru út um allt í hinu íslenska samfélagi; sem verktakagreiðslur, sporslur, styrkir, ofurlaun, ferðalög, veislur, styrkir til stjórnmálaafla og háskóladeilda, lán á sérkjörum, áhættulausar fjárfestingar, fjölmiðlaítök og þannig má lengi telja.

Rannsókn bankahrunsins kemur allt of nálægt valdastofnunum íslensks samfélags til að við getum rannsakað það sjálf. Auk þess er siðferðisþrek þjóðarinnar lamað. Í menntaskólum landsins hefur tíðkast að bankarnir styðji ákveðna frambjóðendur til formennsku í skólafélögunum; ef þeirra frambjóðandi vinnur formannsslaginn þá fær bankinn forskot á markaðssetningu í viðkomandi skóla. Þetta uppeldi í pólitískri spillingu, samþætting stjórnmála og auðs, hefur þótt algerlega eðlilegt á Íslandi. Annað er eftir því. Er til alvarlegri ásökun en sú að forsætisráðherra segi að reynt hafi verið að múta sér? Er það ekki ásökun um tilræði við lýðræðið? Samt leiðir þetta ekki til neins á Íslandi; það hefði tekið einn dag að lygamælaprófa aðila þessa máls

Hví ættu vinaþjóðir okkar erlendis að vilja hjálpa okkur um lánsfé þegar þær hafa á tilfinningunni að lánsfjárkreppan hér sé til komin vegna þess að við höfum leyft einstaka mönnum að sanka að sér ógrynni fjár? Hafa Íslendingar áhuga á að gefa fé til Afríkuríkis þar sem það fer í að gera fáeina menn forríka?

Niðurstaða alls þessa er að bráðnauðsynlegt er að rannsaka bankahrunið en að við séum jafnframt ófær um að gera það sjálf. Í þeim skrifuðum orðum voru að berast fréttir um að Eva Joly hafi verið ráðin til að rannsaka aðdraganda bankahrunsins. Ef farið verður eftir hennar ábendingum verður það einn stærsti sigur sem náðst hefur í endurreisn siðmenningarinnar á Íslandi frá lokum Sturlungaaldar.

Andrés Magnússon
Höfundur er læknir og frambjóðandi í forvali Vinstri grænna í Kraganum

Grein þessi birtist á vefmiðlinum Smugunni 12. mars 2009.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband