Hvernig leysa má fjárhagsvanda heimilanna með nýrri stjórnarskrá

Stundum heyrist í umræðum um stjórnlagaþing að stjórnarskráin sé ágæt og að öðruvísi stjórnarskrá hefði ekki getað komið í veg fyrir Hrunið.  Þetta er ekki rétt, og það sem meira er; ný stjórnarskrá getur leiðrétt Hrunið að miklu leyti og algerlega leyst skuldavanda heimilanna. Fyrst, hvernig öðruvísi stjórnarskrá hefði getað komið í veg fyrir Hrunið:  Stjórnarskrá á að taka á valddreifingu, gæta þess að einn hópur nái ekki yfirburðarstöðu í samfélaginu.  Það hefur legni verið vitað að stjórnarskrár hafa ekki tekið á því að hægt er að ná algerlegum pólitískum undirtökum með auðmagni.  Það er ekki girt fyrir það í stjórnarskrám að hægt sé að dæla peningum í stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn, kaupa upp alla fjölmiðla, láta almannatengslafyrirtæki móta skoðanir fólks og áhrifamanna, reka kosningabaráttu með auglýsingum o.s.fr. o.s.fr.  Hefði stjórnarskráin okkar komið í veg fyrir þessa samþjöppun valds með auðmagni. þ.e. að hægt sé að kaupa upp lýðræðið, þá hefði aldrei orðið hér Hrun.  Þau ákvæði sem hægt hefði verið að hafa í stjórnarskrá, og þurfa að fara inn í nýja stjórnarskrá eru reifuð í grein minni “Samþjöppun Fjölmiðlavalds”  Í öðru lagi; hvernig er hægt að t.d. leysa skuldavanda heimilanna með nýrri stjórnarskrá? Nýjar stjórnarskrár eru iðulega skrifaðar í kjölfar þess að válegir atburðir hafa gerst í samfélaginu.  Núlega hafa hörmulegir atburðir gerst á Íslandi, það stefnir í að einn af hverjum tveimur íslendingum eigi ekki neitt í íbúðarhúsnæði sínu, gjaldmiðillinn er hruninn o.s.fr.  Ennfremur er ljóst að ekki var sagt satt orð í fjölmiðlum landsins árum saman, og algerlega sneytt hjá að upplýsa um það sem máli skipti.  Stjórnarskrár sem skrifaðar eru sérstaklega í kjölfar alvarlegra atburða eru oft með beinar tilvísanir í og ákvæði um þessa atburði.  Það er því ekkert óeðlilegt að vikið verði að Hruninu sérstaklega í nýrri stjórnarskrá.  Þar gæti t.d. staðið:   “Ef það verður kreppa (samkvæmt viðurkenndum skilgreiningum) í landinu vegna umsvifa fjármálageirans þá skulu öll verðmæti sem ennþá eru á höndum manna er unnu við eða höfðu ávinning af fjármálaumsvifunum er leiddu til kreppunnar ganga upp í að greiða skaðann sem ríkissjóður og almenningur varð fyrir beint eða óbeint.  Þetta ákvæði skal vera afturvirkt um 15 ár.”  Hér að neðan er viðbót þar sem lesa má hugmyndir að nánari útfærslu á þessari klausu (uppkast). Margan annan ójöfnuð er hægt að leiðrétta með sjórnarskrá, ef gott fólk velst á stjórnlagaþing þá gætu þetta orðið mikilvægustu kosningar í sögu lýðveldisins hingað til.    Viðbót, nánari útfæsla: Varðandi kreppur sem ekki eru orsakaðar af náttúruhamförum eða umhverfisslysum  Við kreppu* er stjórnvöldum heimilt/skylt að grípa til ákveðinna neyðarlaga. Ef kreppuna má rekja til athafna einnar ákveðinnar atvinnugreinar, ákveðinnar starfssemi eða hóps tengdra einstaklinga þá taka gildi ákveðin neyðarlög sem hafa það að markmiði að þessi atvinnustarfsemi og einstaklingar sem að henni stóðu beri sjálfir eins stóran hluta skaðans og hægt er á eftirfarandi máta: a.  Arður sem greiddur hefur verið út á ofannefndu tímabili úr félögum og fyrirtækjum sem síðan urðu gjaldþrota, (eða urðu fjárhagsleg byrði á Ríkissjóði) verði endurgreiddur. b.  Lög um hluthafafélög verði að hluta til afnumin; Ef ríkissjóður hefur hlotið kostnað (beinan eða óbeinan) vegna gjaldþrots hlutafélags skal sá kostnaður greiddur úr öðrum hlutafélögum í eign þessara einstaklinga.  Ríkissjóðu krefur eigendur hins gjaldþrota félags um greiðslu á þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur orðið fyrir, (Skýring:  Margir léku þann leik að stofna mörg hlutafélög, taka stór lán og fara að veðja grimmt; flest hlutafélögin töpuðu en sum græddu; aðrir báru kostnaðinn af þeim fyrirtækjum sem töpuðu en eigendurnir hirtu gróðann að þeim sem höfðu heppnina með sér í veðmálunum.)   c.  Hagnaður sem orðið hefur til vegna framvirkra samninga, skortstöðutöku, gengisveðmála, vöndla og annarra afleiðusamninga gengur upp í að lágmarka skaða þjóðfélagsins.    Kreppa er skilgreind eftir alþjóðlega viðurkenndum stöðlum.  Ef það er óljóst þá má t.d. miða við:  Ef á 5 (10?) ára tímabili skuldir ríkissjóðs meira en þrefaldast*, eða ef eignir 95% fátækari hluta almennings (eignir á móti skuldum) rýrna um meira en 15% á 5 (10) ára tímabili; (*Ef ríkissjóður hefur verið nálægt því að vera skuldlaus í upphafi tímabilsins þá er eðlilegra að nota regluna : Ef ríkissjóður hrapar um meira en 20% á lista landa yfir skuldir ríkisins sem hlutafall af vergri landsframleiðslu (af löndum þar sem þessi stærð er þekkt)  

Samfélagssamningurinn, "The social contract"

Það er í gildi ákveðinn “Samfélagssamningurinn” (the social contract).  Hann kveður á um að framleiðsla og framboð á vöru skuli vera frjálst en í staðin er gert ráð fyrir því að umsvif fjármagnseigenda og athafnamanna leiði til verðmætasköpunnar fyrir þjóðfélagið.  En hvað ef athafnir framkvæmdamanna og fjármagnseigenda eru ekki hugsaðar til þess að skapa nein verðmæti heldur bara til þess að flytja á milli verðmæti; eða bara til þess að ná undir sig verðmætum sem þegar hafa verið sköpuð og eru fyrir í samfélaginu?  Þá myndast engin hagnaður fyrir samfélagið en verðmæti færast á færri hendur, þ.e. það verður meiri efnahagslegur ójöfnuður án nokkurar verðmætasköpunar.  Nýleg dæmi um þess konar framkvæmdir eða viðskipti eru t.d. “framvirkir samningar”, “skortstöðutökur”, vafningar, afleiðusamningar o.s.fr.  Allt eru þetta veðmál þar sem annar aðilinn græðir jafn mikið og hinn aðilinn tapar, engin nettó hagnaður fyrir samfélagið.  Í fjármálastofnunum er algerlega búið að aftengja peninga við vörur og þjónustu, verslað er með veðmál þar sem algerlega útlokað er að nokkur velferð fáist fyrir samfélagið.  Þess konar viðskipti er margfallt meiri heldur en hin hefðbundnu samskipti við fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu.  Veðmálin eru líka það stór að enginn möguleiki er á að sá sem veðji geti greitt tapið en það greiðist á endanum af ríkinu, þ.e. almenningi. Stjórnlagaþing þarf að taka afstöðu til þess hvort svona viðskipti eigi að tíðkast á Íslandi.  Ef þessi viðskipti verða ekki bönnuð þá þarf að taka afstöðu til hvernig hagnaður af þeim skuli skattaður, t.d. 90%?

Hér er slóð í langa grein um hvernig háskólasamfélagið getur komið að endurreisn íslenska samfélagsins og endurheimt trúverðugleika sinn

http://www.facebook.com/topic.php?topic=220&uid=175009239181026

http://www.facebook.com/topic.php?topic=220&uid=175009239181026#!/topic.php?uid=175009239181026&topic=219

 


Aðgreining dómsvalds

Allir íslenskir dómarar hafa hingað til verið skipaðir af dómsmálaráðherra.  Dómsmálaráðherra er bæði hluti af löggjafarsamkundunni og framkvæmdavaldinu og þegar hann skipar dómara þá er búið að koma löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi á eina hendi.  Þessu þarf að sjalfsögðu að breyta, en hver á þá að veita dómaraembætti?  Á hæstiréttur sjálfur að velja hverjir verða næstu hæstaréttardómar?  Eða eiga prófessorar við Lagadeildir Háskólanna að gera það?  Eða nefnd lögfræðinga? Víða erlendis, t.d. í BNA, er það almenningur, réttlætiskennd almennings, sem ákvarðar sekt eða sakleysi einstaklinga. Ástæða þess er sú að þar hafa menn gert sér grein fyrir að sýn dómara á sakborninga er iðulega lituð af bakgrunni dómaranna sjálfra, gildismati og viðmiðum.  Dómarar eru frekar einsleitur hópur, oftast hvítir karlar á miðjum aldri, þokkalega stæðir, langskólagengnir og lifa í sátt og samlyndi við valdið. Þeirra dómur á það hvað beri að umbera og hvað ekki gæti orðið miklu óvægari þegar í hlut eiga einstaklingar sem hafa allt annað gildismat, klæða sig öðruvísi og búa í öðrum hverfum en dómararnir og hafa ekki eins áreynslulaus samskipti við handhafa auðs og valds og dómararnir sjálfir.  Gott dæmi um þetta er mál svonefndra “nímenninga”, það er lítill vafi á því hvernig það mál myndi fara ef á Íslandi væru “Jury”, kviðdómur almennings. Það er hluti af þjálfun sálfræðinga og geðlækna að gera þá meðvitaða um eigin gildi og fordóma því að það truflar iðulega samband þeirra við sjúklingana.  Í landi sem ekki hefur “jury” (kviðdóm) ættu lögfræðingar ekki síður að fá samskonar þjálfun.  En hér á landi trúa lögræðingar því að þeir séu eins konar tölvur þar sem réttlætistilfinning og lífsskoðanir þeirra lita ekkert störf þeirra.  Kannske finnst dómurum að þeir eigi að vera eins konar tölvuforrit? En hefur lögfræði eitthvað að gera með réttlætistilfinningu?  Á Íslandi snýst lögfræði mest um hvernig dæma skuli eftir bókstafnum, en erlendis heitir dómsmálaráðuneytið “Justicedepartementet” eða “Ministry of Justice”.  Erlendis heitir lögfræði semsé eftir réttlæti og sanngirni.  Íslenskir lögfræðinemar sem fara í framhaldsnám erlendis verða oft yfir sig hissa þegar kennslan snýst um að neminn sjálfur er beðinn um að hugleiða hvort honum finnist lögin samrýmast réttlætiskennd hans, hvort honum finnist að lögin nái tilgangi sínum o.s.fr.  Á Íslandi glataðiat það einhverstaðar á leiðinni að lögin voru sett, og dómstólunum komið á fót, til þess að lítilmagninnn gæti haldið hlut sínum gagnvart stórbokkanum, t.d. auðmanni eða ríkisvaldinu.  Á Íslandi hefur það margoft gerst á undanförnum árum að ef venjulegur íbúi eða blaðamaður reynir að varpa ljósi á atferli auðmanna (útrásarvíkinga) þá má hann búast við að hótað verði málssókn með atbeina dýrustu lögfræðinga landsins.  Við þetta, að afl dómstóla er þannig sveigt undir fjármagnið, hefur lögfræðingafélagið eða lögfræðideildirnar ekkert haft að athuga.  Hver einasti fjármálagjörningur sem nú hefur rúið annan hvern íslending inn að skinni hefur farið um hendur lögfræðinga, og þeir hafa þegið hluta af kökunni í staðin.  Engin umræða hefur verið um það í fagfélögum eða háskóladeildum lögfræðinga.  Að hlutafélagalögin hafa verið misnotuð til þess að færa stórkostlegar skuldir frá fjármálabröskurum yfir á herðar almennings hefur heldur ekki hlotið umfjöllun lögfræðingasamfélagsins.  Það að hægt sé að kaupa fyrir peninga hóp færustu lögfræðinga og nánast ónýta hvaða mál sem er fyrir dómstólum hefur ekki verið gagnrýnt af lögfræðisamfélaginu, ekki einu sinni verið rætt á málfundi laganema. Þessi samþjöppun valds milli réttarkerfisins og peninga gengur þvert á hugmyndina um dreifingu valds.  Þrátt fyrir það hefur engin umræða verið um þessa óheillaþróun, og það þótt ritsjórar stæstu dagblaða landsins séu lögfræðingar.  Aðeins einu sinni hefur lögfræðiháskólasamfélagið komið sýn sinni rækilega á framfæri í seinni tíð, það var ekki um hin skaðsömu en ábatasömu gagnkvæmu tengsl auðmagns og lögfræði, heldur var það um mál nímenninganna svokölluðu.  Það atvik sem loksins braut svo gegn réttlætiskennd lögfræðiprófessors að hann sá sig knúinn til þess að tjá sig í fjölmiðlum var að almenningur vildi fá að fylgjast með pólitísku dómsmáli, vildi fá fleiri áheyrendasæti. En hví eru viðbrögð lögfræðisamfélagsins svo sterk við “nímenningunum”?  Getur það verið að það sé vegna þess að þeir eru af öðru sauðarhúsi en menn dómskerfisins?  Þeir klæða sig öðruvísi, hafa önnur lífsgildi, og þau ógna því kerfi sem lögfræðingar hafa lifað í mjög svo ábatasömu samlífi við.  Það er hætt við því að í þessu máli gæti kviðdómur skipaður almenningi (“jury”) og núverandi embættismannakerfi haft mjög ólíka sýn á sök nímenninganna. Þar eð hvorki háskólasamfélag lögfræðinga né fagfélög þeirra hafa sýnt nokkurn vilja til þess að gagnrýna eða taka á hinum réttarfarslega halla auðnum í vil, þá hlýtur að koma upp sú spurning á komandi stjórnlagaþingi hvort lögrfæðingar séu til þess fallnir að velja sjálfir úr eigin hópi hverjir skulu hljóta dómaraembætti.  Kannske verður Alþýðusambandið, samtök sveitarfélaga eða einhver önnur alls óskyld samtök líka að koma að valinu; eða þá að kosið verður í almennum kosningum líkt og gert er í BNA.  Að lokum skora ég á dómsmálaráðherra að breyta nafninu á ráðuneyti sínu, það vitnar um gamla valdatíma.  Orðið “justice” þýðir ekki að dæma, nafnið yrði þá réttlætis- og/eða sanngirnis ráðuneytið.

Samþjöppun fjölmiðlavalds

Í landsdómsmálinu svokallaða hefur ein helsta vörn hinna ákærðu fyrir aðgerðarleysinu verið sú að það hefði ekki verið hægt að gera neitt því ljóst var þegar árið 2006 að bankarnir myndu fara á hausinn.  Því hlýtur að vakna spurningin; var logið að þjóðinni stanslaust í tvö ár; af stjórnmálamönnum, greiningadeildum banka, opinberum stofnunum og síðast en ekki síst fjölmiðlum?  Er í vel upplýstu, menntuðu, gagnsæju lýðræðisþjóðfélagi hægt að leyna lífsnauðsynlegum staðreyndum og halda fram hinu gagnstæða?  Svarið er nei, en í samfélagi þar sem lýðræðið er meingallað er það hægt.  Úr því þarf að bæta með hinni nýju stjórnarskrá, og hér ætla ég að ræða um fjölmiðlana.  Allir eru sammála um að það þurfi að strjórnarskrábinda valddreifingu.  Nýlega gerðist það á Íslandi að valddreifingar var ekki gætt, einum litlum hópi auðmanna tókst að ná algerum undirtökum í samfélaginu með því að kaupa upp alla fjölmiðla, styrkja stjórnmálaflokka, gera háskólasamfélagið fjárhagslega háð sér o.s.fr. Þeir nýttu sér aðstöðu sína þannig að annar hver íslendingur er nú orðin eignarlaus, og flestir venjulegir atvinnurekendur eru í alvarlegum vanda.  Aðeins 15% þjóðarinnar á ekki við greiðsluvanda að etja en Hrunkvöðlarnir eru aðalleikendur í efnahagslífinu ennþá. En hvernig náðu þeir slíkri samþjöppun valds á sínar hendur?  Með því að nýta sér í þaula galla sem lengi hafði verið á íslensku lýðræðinu, nefnilega að það var, og er, hægt að kaupa það.  Alls staðar þar sem orðið hefur gífurleg samþjöppun valds, t.d. í Rússlandi og Þýskalandi millistríðsáranna byrjaði samþjöppunin á því að einokun varð á upplýsingum, og aðeins einn aðili matreiddi fréttir ofaní fólk.  Sama staða var hér á Íslandi; eigendur bankanna áttu svotil alla fjölmiðlana, og eiga reyndar ennþá því Ríkið hefur afskrifað skuldir fjölmiðla þeirra.  Íslenskur almenningur borgar fyrir að unnið sé gegn hagsmunum hans. Stundum er sagt að fjölmiðlar séu fjórða aflið á eftir löggjar-, framkvæmda- og dómsvaldi, en er það rétt?  Er fjölmiðlavaldið, ef á einni hendi, ekki fyrsta valdið?  Með fjölmiðlum er hægt að ráða hvað meirihluti fólks veit og hvað því finnst og þannig ráða hverjir eru kosnir til alþingis, sem aftur ræður framkvæmdavaldinu sem skipar dómara.  Dreifing á eignarhaldi fjölmiðla er fjöregg lýðræðisins, alger forsenda þess.  Samfélag þar sem einn hagsmunahópur ræður meirihluta fjölmiðla er ekki lýðræðissamfélag.  Stóreignamenn er einn hagsmunahópur, ekki margir mismunandi hagsmunahópar, það sást gerlega hversu tengdir allir eigendur bankanna voru hvorir öðrum.  Hagsmunir stóreignamanna fara saman.  Það er þeirra hagur að stóreignaskattar verði afnumdir, að veðmál (afleiðusamningar, framvirkir samningar) verði áfram leyfðir í bönkunum, að neytendavernd sé ábótavant, að eftirlit sé í lágmarki, að gegnsæi í viðskiptum sé sem minnst, að engin umræða sé í fjölmiðlum um vaxandi misskiptingu auðs o.s.fr.  Það eru forréttindi í sjálfu sér að eiga mikinn auð, en það á ekki líka að færa auðmanninum rétt til þess að ráða hvað fólk veit, hvað fólki finnst og hverning almenningur hugsar.  Þess vegna verður að festa í stjórnarskrána að engin einn hagsmunahópur á Íslandi geti átt meira en t.d. 25-33% fjölmiðla, og þar af leiðandi að ekki meira en 25-33% af fjölmiðlum geti verið í eign (beinni eða óbeinni) stóreignamanna.  Þetta gæti hugsanlega kostað einn eða tvo milljarða fyrst í stað, en nýlega kostaði eignarhald auðmanna á fjölmiðlum þjóðina 10 þúsund milljarða, auk þess eru bankarnir okkar margbúnir að afskrifa svotil alla fjölmiðla á Íslandi, þ.e. almenningur hefur hvort sem er kostað þá.  Í Bretlandi er sagt að enginn stjórnmálamaður eigi framtíð fyrir sér ef hann fær Robert Murdock á móti sér, en hann er eigandi allra öflugustu fjölmiðlana í Bretlandi.  Bretar börðust fyrir lýðræði kynslóð fram af kynslóð, kostuðu til þess ómældum fórnum og mannslífum, en afkomendur þessarra lýðræðishugsjónamanna finnst allt í lagi að afhenda lýðræðið aftur einum manni, fjölmiðlamógúl.  Staðan er svipuð á Íslandi. En hvað með ríkisfjölmiðla?  Enn ein leið til þess að kaupa skoðanir áhrifamanna og almennings er gegnum “almannatengslafyrirtæki”.  Er það raunverulegt lýðræði, raunveruleg valddreifing ef auður getur keypt skoðanir almennings og ráðamanna?  Er það ekki samþjöppun valds til eignarmanna?   Verður ekki að viðurkenna að vald fylgir peningum?  Verður valdið ekki að vera gegnsætt í lýðræðisþjóðfélgi?  Verðum við ekki að vita hverjir eru að borga fyrir að koma ákveðnum skoðunum á framfæri, hverjir eru að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna og skoðanir almennings gegnum almannatengslafyrirtæki?  Því verður að festa í stjórnarskrá að bókhald almannatengslafyrirtækja verði að vera opið. Í læknisfræði verða greinarhöfundar og fyrirlesarar að gefa upp hvort og þá hvernig þeir eru tengdir lyfjafyrirtækjum.  Þessu verður líka að koma á varðandi þau fyrirtæki sem vinna að því að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks.  Bæði sjónvarpsstöðvar og blöð þurfa sífellt að gefa upp hverjir eigendur eru og hvaða hagsmunum þau tengjast, lesendur eða áhorfendur eiga að sjálfsögðu rétt á að vita það. Æ sér gjöf til gjafar.  Eina hlutverk stjórnmálamanna er að gæta hagsmuna almennings, gæta þess að hagsmunum fjöldans verði ekki fórnað fyrir hagsmuni fárra valdamikilla aðila.  Það er því alger mótsögn að þessir valdamiklu aðilar geti keypt sér velvild stjórnmálamanna með því að styrkja framboð þeirra. Enn ein aðferðin sem stuðlar að samþjöppun valds á hendur fjársterkra aðila er að leyfa auglýsingar í kosningabaráttum.  Það segir sig sjálft að ef mönnum er annt um valddreifingu þá verður að afnema auglýsingar í kosningabaráttum.  Styrkir til stjórnmálaflokka eiga að notast til þess að upplýsa almenning, ekki til þess að kaupa föt, hársnyrtingu og auglýsingar. Atvinnurekendur þurfa að eiga greiðan aðgang að ráðamönnum.  Þeir þurfa að geta komið sínum skoðunum á framfæri við ráðherra, en þeir eiga ekki að ráða því hver verður ráðherra.  Það þarf þó aðathuga að til eru tvenns konar “atvinnurekendur”, þeir sem eru að skapa verðmæti og þeir sem eru að vinna í að því að ná til sín þeim verðmætum sem þegar hafa verið sköpuð.  Þess vegna er rétt að gera greinarmun á atvinnurekendum og fjármálamönnum.  Það voru hinir síðarnefndu sem lögðu Ísland í rúst, almenning jafnt sem atvinnurekendur, og ný stjórnarskrá þarf að bregðast við því. Að lokum þetta:  Á 17. öldinni hófst merkileg hreyfing sem kölluð var upplýsingastefnan.  Frumkvöðlar hennar voru á móti því að almenningi skyldi haldið fáfróðum og að aðeins valdastéttin mætti búa að menntun og þekkingu.  Alfræðibækur og upplýsingarit voru prenntuð, almenningur fór að hugsa sjálfstætt um þjóðfélagsmál.  Lýðræði fæddist.  Lýðræði er eðlilegur fylgifiskur þess að allar upplýsingar liggi fyrir og að opin umræða fari fram.  Þessu ferli, upplýsingunni, er hægt að snúa við með því að kaupa upp alla fjölmiðla og ná stjórn á allri umræðu.  Þá tekst aftur að telja almenningi trú um að hann eigi ekki rétt á að eiga neitt, að hann eigi að borga skuldir óreiðumanna, að hann eigi að taka á sig veðmál aukýfinga gegn krónunni og borga töpuð veðmál þeirra í bönkunum.  Ný stjórnarskrá þarf að standa með upplýsingunni, gegn samþjöppun upplýsingavalds. 

Sjö óbrigðul ráð til að afstýra kreppu á Íslandi

Ég setti þetta á blað seinnipart janúar, ræddi efnið í Silfri Egils 1. febrúar en ýmislegt hefur breyst síðan, góðu heilli. Komin er ný ríkisstjórn, frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi og ýmist samþykkt eða bíða samþykktar. Dæmi um slíkt er frumvarpið um hópmálsókn sem ég nefni í lið nr. 2. Set þetta engu að síður hér inn til íhugunar.


Skuldir ríkisins eru nær 2.100 milljarðar.  Einhverjar eignir eru bundnar í bönkunum en lágt verð fæst fyrir þær um þessar mundir. Mat AGS virðist því vera nokkuð nærri lagi, að heildarlántökuþörf ríkisins vegna lántökuglæfra og bókhaldsfegrunaraðgerða bankanna (einnig kallað bankahrun) sé um 1.600 milljarðar. Svíar lentu í djúpri bankakreppu 1991 sem þeir eru ekki ennþá búnir að vinna sig almennilega útúr. Heildarkostnaður skattgreiðenda þar var 1.800 milljarðar íslenskra króna (núvirði). Svíar eru u.þ.b 30 sinnum fleiri en Íslendingar, því virðist bankakreppa okkar vera 25 sinnum verri en sænska bankakreppan. Það er vonlaust að íslenskur almenningur sem nú þegar er að kikna undan sínum eigin körfulánum, verðtryggðum ofurvaxtarlánum og atvinnuleysi geti nokkurn tíman borgað þessa skuld fyrir fjárglæframenn sína. En það er engin ástæða til þess að örvænta, það er leið út úr vandanum. Þeir einstaklingar sem komu okkur í þennan vanda eiga nægar eignir til þess að greiða skuldir sínar sjálfir. En þar sem þeir hafa ekki tekið til sín orð ráðamanna um að allir þurfa nú að hjálpast að og sýna samstöðu þá er vandinn bara hvernig hægt er að ná aftur af þeim eigum sem þeir hafa skotið undan. Hér skal bent á nokkrar leiðir:

1.
Þó svo að íslensk fjármálalöggjöf gefi fjárglæframönnum afar frjálsar hendur en neytandanum lítil réttindi þá eru samt lögbrot undanfarinna ára svo stórtæBankark að hægt er að dæma eigendur bankanna eftir hinum hripleku íslensku lögum. Eigendur bankanna stofnuðu félög sem þeir blésu upp gengið á og létu svo lífeyrissjóði í vörslu bankanna, og viðskiptavini í fjármálaráðgjöf, kaupa þessi bréf á yfirverði. Eigendur bankanna veðjuðu öllu sínu fé á að gengi krónunnar myndi falla, en fengu svo lífeyrissjóðina, (sem sumir voru í ráðgjöf hjá bönkunum) til þess að veðja á móti þeim, þ.e. ráðlögðu skjólstæðingum sínum að gera þveröfugt við það sem þeir sjálfir gerðu. Þetta, og margt fleira er ólöglegt og því hægt að endurheimta féð með lögsóknum.

2.
Bæta löggjöfina þannig að léttara verði fyrir einstaklinga að sækja rétt sinn gagnvart fyrri eigendum bankanna. Á Íslandi geta t.d. einstaklingar ekki höfðað sameiginlegt mál gegn bönkunum t.d. fyrir vísvitandi villandi ráðgjöf, heldur þarf hver og einn að fara í mál fyrir sig einan. Þannig er því ekki farið í siðmenntuðum löndum í kringum okkur. Ef fyrirtæki brýtur gegn viðskiptavinum sínum verða þeir sem fyrir brotinu verða sjálfkrafa aðilar að sameiginlegri málshöfðun. Bretland veitir neytendum og smáum hluthöfum góða vernd gegn bellibrögðum þeim sem leyfð eru á Íslandi, hægt er að taka upp bresku löggjöfina hér.

3.
Hinum nýju auðmönnum Íslands tókst að koma skuldum sínum yfir á almenning gegnum ríkisvaldið, og með ríkisvaldinu má aftur ná af þeim fénu. Þjóðin er í algerlega nýrri aðstöðu, hún á að greiða skuldir manna sem ferðast um heiminn á einkaþotum og velta sér upp úr auðæfum. Ekki Lög greypt í steiner óeðlilegt að nýrri löggjöf verði komið á sem bregðist við þessum nýju aðstæðum. Nú er neyðarástand, þá eru sett neyðarlög. Íslensk lög eru ekki greypt í stein af Guði, heldur sett af fulltrúum almennings á Alþingi. Lagasetning er að festa í orð það sem endurspeglar réttlætiskennd þjóðar. Hin nýju lög gætu t.d. hljóðað eitthvað á þessa leið: "Ef ríkissjóður (almenningur) þarf að taka á sig skuldbindingar einkafyrirtækja sem nema meira en x% af VLF þá útleysir það ákveðin réttindi þeirra sem þurfa að greiða það. Fyrningafrestur lengist, banka- og bókhaldsleynd afléttist, og allar færslur sem ljóst mátti vera að hefði veikt stöðu hins gjaldþrota fyrirtækis og aukið skuldir almennings verði látnar ganga til baka eftir því sem við verður komið o.s.frv.".

4.
Útrásarímyndinni var m.a. viðhaldið með þjóðernisrembingi. Nú er búið að æsa íslendinga upp á móti Bretum. En bankamennirnir okkar (studdir af FME, seðlabanka og ráðherrum) fóru nákvæmlega eins með breskan almenning og íslenskan. Bretar eru á alveg sama báti og íslenskur almenningur. Bretar horfa nú agndofa uppá að íslensk stjórnvöld ætla að halda hlífiskildi yfir fjárglæframönnunum og ekki gefa þeim aðgang að þeim. ICESAVE og EDGE deilurnar á að semja um á eftirfarandi hátt: Bretum (og öðrum þjóðum) er veittur ótakmarkaður aðgangur að gögnum íslensku bankanna og veitt öll sú aðstoð sem hægt er til að lögsækja þá fyrir óeðlilegra viðskiptahætti. Það sem að því loknu stendur eftir af skuldinni getur ríkissjóður ábyrgst. Þetta er nauðsynlegt, þar sem íslendingar geta ekki gert þetta sjálfir þar sem nýlega er búið að fækka í starfsliði efnahagsbrotadeildar og þar sem enginn pólitískur vilji er til að fara í þessi mál.

5.
Tölur frá seðlabankanum sýna að bankaútrásin var 2.000 milljarðar í mínus fyrir hrunið, en bankarnir (og ráðherrarnir) sögðu að eiginfjárhagsstaðan væri plús 1000 milljarðar. Einn fremsti upphafsmaður bankaútrásarinnar útskýrði að misENRON - The Smartest Guys in the Roommunurinn, 3.000 miljarðar, væri viðskiptavild og aðrar óefnislegar eigur, "einnig kallað loft". Þetta var viðskiptavild sem smurt var ofan á þá viðskiptavild sem þegar var inn í fyrirtækjunum þegar þau voru keypt. Svona bókfærsla ber keim af ENRON-hneykslinu. Endurskoðendafyrirtæki ENRON, Anderson Consulting, missti allt traust og fór á hausinn þegar kom á daginn hvers konar bókhald það hafði ábyrgst. Hin erlendu móðurfyrirtæki íslensku bankaendurskoðendanna gætu orðið fyrir alvarlegum álitshnekki ef það kæmist í hámæli að þeirra umboðsskrifstofur hefðu skrifað uppá bókhaldsloftfimleika íslensku bankanna og útrásarvíkinganna. Íslendingar ættu að benda móðurfyrirtækjunum á þetta og rétta fram sáttarhönd ef þau fara rækilega í gegnum endurskoðunarvinnu íslensku útibúanna. Þannig myndi fást góð og ókeypis viðbótarrannsókn sem kæmi sér vel í komandi réttarhöldum þar sem féð verður aftur sótt í hendur þeirra sem halda því í dag. Ef hinar erlendu bókhaldsskrifstofur ganga ekki að þessu þá er hætt við að Íslendingar viðri óánægju sína á áberandi erlendum vettvangi.

6.
Til er tvenns konar fjármálastarfsemi í heiminum í dag. Annars vegar þar sem verið er að beina fjármunum til verðmætasköpunar, og hins vegar þar sem hlutabréfum er breytt í spilapeninga og stunduð er veðmálastarfsemi með framvirkum samningum, gjaldeyrisstöðutökum o.s.frv. Hið síðarnefnda er miklu umfangsmeira í dag, skilar aldrei neinni framleiðni og er almenningi aldrei til góðs. Þeir sem búa yfir meiri þekkingu, t.d. eigendur bankanna sem vita hvernig raunveruleg staða er, geta platað þá sem minna vita, t.d. stjórnendur lífeyrissjóða og útvegsfyrirtækja. Þeir menn sem þessa tegund viðskipta stunda eru nefndir "financial predators"eða fjármunarándýr, það eru þeir sem hafa rakað til sín fjármagninu á Íslandi sem ríkissjóður er nú að reyna að útvega annars staðar frá á kostnað skattborgaranna. Fé þessara manna má ná aftur með því t.d. að innleiða 90% skatt á arð af framvirkum samningum og 50% árlegan eignaskatt af eignum tilkomnum af framvirkum samningum o.s.frv.

7.
Það var algerlega skýrt við stofnun sparisjóðanna að þeir ættu ekki að vera gróðafyrirtæki heldur byggjast á hugsjónum, almenningi til hagsbóta. Talið er að heildareignir sparisjóðanna sem auðmenn hafa nýlega stolið af almenningi skipti tugum jafnvel hundruðum milljarða. Þessu fé er sára einfalt að ná tilbaka með lagasetningu ef kosnir eru menn á þing sem hafa vilja til þess að ganga í það verk.

Kæri lesandi,
Íslendingar standa frammi fyrir kreppu sem virðist vera margfalt dýpri en bankakreppurnar sem riðu yfir nágrannalönd vor fyrir 17 árum.  Í finnsku efnahagslægðinni djúpu urðu skuldir ríkissjóðs 60% af VLF en ríkissjóður Íslands skuldar nú 200% af VLF. Íslenskur almenningur er þegar búinn að Peningartapa mestu af lífeyri sínum, búist er við atvinnuleysi og landflótta, fólkið er að sligast undan svimandi háum verðtryggðum vöxtum og myntkörfulánum.  Þetta fólk getur ekki bætt við sig að borga af  þeim 2100 miljörðum sem ríkissjóður skuldar nú (hann var skuldlaus fyrir ári síðan). Lausnin á þessum vanda getur því aðeins verið sú að beita öllum tiltækum ráðum til að ná fjármununum af þeim vellauðugu mönnum sem ollu kreppunni. Við fall bankanna kom í ljós að þeir höfðu veðjað u.þ.b. 700 miljörðum á að gengi íslensku krónunnar myndi falla (sem er sambærilegt við að læknir veðji aleigu sinni á að sjúklingurinn sem hann er að stunda muni verða alvarlega veikur eða drepast).  Ágóði þessa gengisveðmáls gæti orðið u.þ.b. eitt þúsund miljarðar. Það er þetta fé sem þarf að ná aftur; ásamt því fé sem hefur streymt gegnum hina gjaldþrota banka til dótturfyrirtækja fyrrverandi eigenda þeirra.


Rannsókn bankahrunsins

Umsvif íslensku bankanna undanfarinn áratug hafa byggst á svokölluðu Carry Trade.


Carry Trade er það, að taka að láni fé í landi þar sem vextir eru afar lágir (t.d. 0,2% í Japan og Sviss) og endurlána þá til lands þar sem vextir eru háir, t.d. til Íslands með u.þ.b. 18% vöxtum. Vegna vaxtamunarins í hinum tveimur löndum myndast fyrst um sinn mikill hagnaður. Gallinn er hins vegar sá, að þessi viðskipti ganga bara í ákveðinn tíma, svo enda þau alltaf með skelfingu.

Íslensku bankarnir fengu sín lán erlendis til fáeinna ára en endurlánuðu á Íslandi til langs tíma, þeir þurftu því sífellt að geta fengið ný skammtímalán erlendis til að fjármagna langtímalánin á Íslandi. Dæmið gengur upp meðan endurfjármögnun fæst, en að meðaltali er fjármagnskreppa í heiminum með ca. 10 ára millibili og þá er erfitt að fá endurfjármögnun. U.þ.b. ári fyrir bankahrunið var orðið ljóst að íslensku bankarnir gætu ekki endurfjármagnað sig, enda sagði aðaleigandi Glitnis þá að það jafngilti gjaldþroti bankans, og reyndist hann sannspár.

Carry Trade hrynur líka ef gengi íslensku krónunnar lækkar því þá verða endurgreiðslurnar á íslensku lánunum verðminni og duga ekki til að greiða upphaflegu erlendu lánin. Íslensku bankarnir voru því alltaf háðir því að seðlabankinn héldi uppi gengi krónunnar með háum stýrivöxtum. Carry Trade fer einnig á hliðina ef vextir hækka í erlenda lánalandinu, eða ef þeir lækka á Íslandi, og þannig mætti lengi telja. Af þessu má ljóst vera að Carry Trade gengur í efnahagsuppsveiflu en hrynur þegar kemur að efnahagssamdráttarskeiði en þau koma að meðaltali sem fyrr segir á 10 ára fresti.

En þeir sem voru að stunda Carry Trade eru ekki á flæðiskeri staddir þó að bankaviðskipti þeirra fari á hliðina með ómældum hörmungum fyrir þjóðfélagið. Lánsféð úr bönkunum er flutt yfir í dótturfélög eigenda bankanna. Einnig eru búin til félög, verðinu komið upp með bókhalds- og viðskiptabrellum og þessi félög seld lífeyrissjóðum og almenningi í fjármálaráðgjöf hjá bönkunum. Þegar ljóst er orðið að allt er að fara á hausinn, og skrifað um það í öllum erlendum blöðum (íslenskur almenningur veit það þó ekki því að eigendur bankanna stjórna fjölmiðlunum hér) þá er áfram hægt að græða með því að taka skortstöðu gegn íslenska hagkerfinu. Þannig tapaði einn eigenda Kaupþings 50 miljörðum á hlutabréfunum sínum í Kaupþingi en taldi sig samtímis hafa grætt 188 milljarða á skortstöðu gegn íslensku krónunni. M.ö.o., græddi vel á því að leggja allt í rúst. Að geta stundað Carry Trade krefst þess að menn eigi eitthvað svolítið af peningum, hafi góða aðstöðu, þokkalega meðalgreind, en fyrst og fremst krefst það algers samviskuleysis gagnvart því hvað verið er að gera samlöndum sínum.

Skuldir ríkisins (sem var skuldlaust fyrir skömmu) eru nú 2.600 miljarðar. Óvíst er hvers virði eignirnar eru á móti þessum skuldum, en í albesta lagi verður nettó skuld ríkisins vel yfir 1.000 miljarðar. Það er vonlaust að skilja þessa tölu nema að hún sé sett í samhengi við eitthvað annað. Miðað við höfðatölu þá er þessi skuldastaða ríkissjóðs helmingi verri heldur en Finnar upplifðu í sinni kreppu þegar Rússlandsmarkaður hrundi. Hún er a.m.k. tíu sinnum verri en lánsfjárþörf sænska ríkisins varð í sænsku bankakreppunni. Kaliforníuríki er talið vera gjaldþrota, þar eru starfsmenn sendir reglulega heim í launalaus leyfi; skuldastaða íslenska ríkisins er tíu sinnum verri heldur en sú kaliforníska. Afborganir af lánum ríkissjóðs bara á þessu ári eru taldar verða 125 miljarðar, eða meira en ein Kárahnjúkavirkjun. Augljóslega verður strax að grípa til fumlausra aðgerða ef það á að vera nokkur von til þess að vinna sig út úr vandanum.

Lítum á hvað gert hefur verið. Búið er að skera niður yfirvinnu hjá Reykjavíkurborg, þar á að spara einn miljarð króna. Það þyrfti að halda þessu yfirvinnubanni á alla starfsmenn Reykjavíkurborgar í meira en 100 ár til að dekka yfirdráttarheimild bara hjá einum viðskiptavini gamla Kaupþings. Mikill niðurskurður er boðaður í heilbrigðisþjónustunni, þar á að spara 5 til 6 miljarða á ári. Það þyrfti að halda þessum niðurskurði í 30 ár bara til þess að Kaupþing geti greitt út til eins manns kröfu vegna skortstöðutöku gegn íslensku krónunni.

Augljóslega er ekki hægt að vinna sig út úr vandanum með því að almenningur (sem er á hausnum nú þegar) herði sultarólina, upphæðirnar sem til þarf eru bara til í heimi auðmannanna. Slóð þeirra er vörðuð lögbrotum, og það ætti að vera hægur vandi að ná fénu aftur. En erum við í stakk búin til að vinna þá vinnu sjálf, Íslendingar? Svarið er "Nei".

Lán útrásarvíkinganna samsvara því að u.þ.b. 150 milljónir hafi verið teknar að láni á hverja einustu fjölskyldu í landinu. Enginn máttur fær staðist það vald sem fylgir slíku auðmagni. Það svarar til þúsunda asna klyfjuðum gulli. Ef 1% af lánum útrásarvíkinganna hefðu verið notuð til að liðka fyrir og styrkja stöðu þeirra á Íslandi, þá hefðu þeir getað greitt 1.400 manns 100 milljónir hverjum. Ekkert samfélag fær staðist slíkt. Greiðslurnar eru út um allt í hinu íslenska samfélagi; sem verktakagreiðslur, sporslur, styrkir, ofurlaun, ferðalög, veislur, styrkir til stjórnmálaafla og háskóladeilda, lán á sérkjörum, áhættulausar fjárfestingar, fjölmiðlaítök og þannig má lengi telja.

Rannsókn bankahrunsins kemur allt of nálægt valdastofnunum íslensks samfélags til að við getum rannsakað það sjálf. Auk þess er siðferðisþrek þjóðarinnar lamað. Í menntaskólum landsins hefur tíðkast að bankarnir styðji ákveðna frambjóðendur til formennsku í skólafélögunum; ef þeirra frambjóðandi vinnur formannsslaginn þá fær bankinn forskot á markaðssetningu í viðkomandi skóla. Þetta uppeldi í pólitískri spillingu, samþætting stjórnmála og auðs, hefur þótt algerlega eðlilegt á Íslandi. Annað er eftir því. Er til alvarlegri ásökun en sú að forsætisráðherra segi að reynt hafi verið að múta sér? Er það ekki ásökun um tilræði við lýðræðið? Samt leiðir þetta ekki til neins á Íslandi; það hefði tekið einn dag að lygamælaprófa aðila þessa máls

Hví ættu vinaþjóðir okkar erlendis að vilja hjálpa okkur um lánsfé þegar þær hafa á tilfinningunni að lánsfjárkreppan hér sé til komin vegna þess að við höfum leyft einstaka mönnum að sanka að sér ógrynni fjár? Hafa Íslendingar áhuga á að gefa fé til Afríkuríkis þar sem það fer í að gera fáeina menn forríka?

Niðurstaða alls þessa er að bráðnauðsynlegt er að rannsaka bankahrunið en að við séum jafnframt ófær um að gera það sjálf. Í þeim skrifuðum orðum voru að berast fréttir um að Eva Joly hafi verið ráðin til að rannsaka aðdraganda bankahrunsins. Ef farið verður eftir hennar ábendingum verður það einn stærsti sigur sem náðst hefur í endurreisn siðmenningarinnar á Íslandi frá lokum Sturlungaaldar.

Andrés Magnússon
Höfundur er læknir og frambjóðandi í forvali Vinstri grænna í Kraganum

Grein þessi birtist á vefmiðlinum Smugunni 12. mars 2009.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband