Aðgreining dómsvalds

Allir íslenskir dómarar hafa hingað til verið skipaðir af dómsmálaráðherra.  Dómsmálaráðherra er bæði hluti af löggjafarsamkundunni og framkvæmdavaldinu og þegar hann skipar dómara þá er búið að koma löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi á eina hendi.  Þessu þarf að sjalfsögðu að breyta, en hver á þá að veita dómaraembætti?  Á hæstiréttur sjálfur að velja hverjir verða næstu hæstaréttardómar?  Eða eiga prófessorar við Lagadeildir Háskólanna að gera það?  Eða nefnd lögfræðinga? Víða erlendis, t.d. í BNA, er það almenningur, réttlætiskennd almennings, sem ákvarðar sekt eða sakleysi einstaklinga. Ástæða þess er sú að þar hafa menn gert sér grein fyrir að sýn dómara á sakborninga er iðulega lituð af bakgrunni dómaranna sjálfra, gildismati og viðmiðum.  Dómarar eru frekar einsleitur hópur, oftast hvítir karlar á miðjum aldri, þokkalega stæðir, langskólagengnir og lifa í sátt og samlyndi við valdið. Þeirra dómur á það hvað beri að umbera og hvað ekki gæti orðið miklu óvægari þegar í hlut eiga einstaklingar sem hafa allt annað gildismat, klæða sig öðruvísi og búa í öðrum hverfum en dómararnir og hafa ekki eins áreynslulaus samskipti við handhafa auðs og valds og dómararnir sjálfir.  Gott dæmi um þetta er mál svonefndra “nímenninga”, það er lítill vafi á því hvernig það mál myndi fara ef á Íslandi væru “Jury”, kviðdómur almennings. Það er hluti af þjálfun sálfræðinga og geðlækna að gera þá meðvitaða um eigin gildi og fordóma því að það truflar iðulega samband þeirra við sjúklingana.  Í landi sem ekki hefur “jury” (kviðdóm) ættu lögfræðingar ekki síður að fá samskonar þjálfun.  En hér á landi trúa lögræðingar því að þeir séu eins konar tölvur þar sem réttlætistilfinning og lífsskoðanir þeirra lita ekkert störf þeirra.  Kannske finnst dómurum að þeir eigi að vera eins konar tölvuforrit? En hefur lögfræði eitthvað að gera með réttlætistilfinningu?  Á Íslandi snýst lögfræði mest um hvernig dæma skuli eftir bókstafnum, en erlendis heitir dómsmálaráðuneytið “Justicedepartementet” eða “Ministry of Justice”.  Erlendis heitir lögfræði semsé eftir réttlæti og sanngirni.  Íslenskir lögfræðinemar sem fara í framhaldsnám erlendis verða oft yfir sig hissa þegar kennslan snýst um að neminn sjálfur er beðinn um að hugleiða hvort honum finnist lögin samrýmast réttlætiskennd hans, hvort honum finnist að lögin nái tilgangi sínum o.s.fr.  Á Íslandi glataðiat það einhverstaðar á leiðinni að lögin voru sett, og dómstólunum komið á fót, til þess að lítilmagninnn gæti haldið hlut sínum gagnvart stórbokkanum, t.d. auðmanni eða ríkisvaldinu.  Á Íslandi hefur það margoft gerst á undanförnum árum að ef venjulegur íbúi eða blaðamaður reynir að varpa ljósi á atferli auðmanna (útrásarvíkinga) þá má hann búast við að hótað verði málssókn með atbeina dýrustu lögfræðinga landsins.  Við þetta, að afl dómstóla er þannig sveigt undir fjármagnið, hefur lögfræðingafélagið eða lögfræðideildirnar ekkert haft að athuga.  Hver einasti fjármálagjörningur sem nú hefur rúið annan hvern íslending inn að skinni hefur farið um hendur lögfræðinga, og þeir hafa þegið hluta af kökunni í staðin.  Engin umræða hefur verið um það í fagfélögum eða háskóladeildum lögfræðinga.  Að hlutafélagalögin hafa verið misnotuð til þess að færa stórkostlegar skuldir frá fjármálabröskurum yfir á herðar almennings hefur heldur ekki hlotið umfjöllun lögfræðingasamfélagsins.  Það að hægt sé að kaupa fyrir peninga hóp færustu lögfræðinga og nánast ónýta hvaða mál sem er fyrir dómstólum hefur ekki verið gagnrýnt af lögfræðisamfélaginu, ekki einu sinni verið rætt á málfundi laganema. Þessi samþjöppun valds milli réttarkerfisins og peninga gengur þvert á hugmyndina um dreifingu valds.  Þrátt fyrir það hefur engin umræða verið um þessa óheillaþróun, og það þótt ritsjórar stæstu dagblaða landsins séu lögfræðingar.  Aðeins einu sinni hefur lögfræðiháskólasamfélagið komið sýn sinni rækilega á framfæri í seinni tíð, það var ekki um hin skaðsömu en ábatasömu gagnkvæmu tengsl auðmagns og lögfræði, heldur var það um mál nímenninganna svokölluðu.  Það atvik sem loksins braut svo gegn réttlætiskennd lögfræðiprófessors að hann sá sig knúinn til þess að tjá sig í fjölmiðlum var að almenningur vildi fá að fylgjast með pólitísku dómsmáli, vildi fá fleiri áheyrendasæti. En hví eru viðbrögð lögfræðisamfélagsins svo sterk við “nímenningunum”?  Getur það verið að það sé vegna þess að þeir eru af öðru sauðarhúsi en menn dómskerfisins?  Þeir klæða sig öðruvísi, hafa önnur lífsgildi, og þau ógna því kerfi sem lögfræðingar hafa lifað í mjög svo ábatasömu samlífi við.  Það er hætt við því að í þessu máli gæti kviðdómur skipaður almenningi (“jury”) og núverandi embættismannakerfi haft mjög ólíka sýn á sök nímenninganna. Þar eð hvorki háskólasamfélag lögfræðinga né fagfélög þeirra hafa sýnt nokkurn vilja til þess að gagnrýna eða taka á hinum réttarfarslega halla auðnum í vil, þá hlýtur að koma upp sú spurning á komandi stjórnlagaþingi hvort lögrfæðingar séu til þess fallnir að velja sjálfir úr eigin hópi hverjir skulu hljóta dómaraembætti.  Kannske verður Alþýðusambandið, samtök sveitarfélaga eða einhver önnur alls óskyld samtök líka að koma að valinu; eða þá að kosið verður í almennum kosningum líkt og gert er í BNA.  Að lokum skora ég á dómsmálaráðherra að breyta nafninu á ráðuneyti sínu, það vitnar um gamla valdatíma.  Orðið “justice” þýðir ekki að dæma, nafnið yrði þá réttlætis- og/eða sanngirnis ráðuneytið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband