Samþjöppun fjölmiðlavalds
Mánudagur, 15. nóvember 2010
Í landsdómsmálinu svokallaða hefur ein helsta vörn hinna ákærðu fyrir aðgerðarleysinu verið sú að það hefði ekki verið hægt að gera neitt því ljóst var þegar árið 2006 að bankarnir myndu fara á hausinn. Því hlýtur að vakna spurningin; var logið að þjóðinni stanslaust í tvö ár; af stjórnmálamönnum, greiningadeildum banka, opinberum stofnunum og síðast en ekki síst fjölmiðlum? Er í vel upplýstu, menntuðu, gagnsæju lýðræðisþjóðfélagi hægt að leyna lífsnauðsynlegum staðreyndum og halda fram hinu gagnstæða? Svarið er nei, en í samfélagi þar sem lýðræðið er meingallað er það hægt. Úr því þarf að bæta með hinni nýju stjórnarskrá, og hér ætla ég að ræða um fjölmiðlana. Allir eru sammála um að það þurfi að strjórnarskrábinda valddreifingu. Nýlega gerðist það á Íslandi að valddreifingar var ekki gætt, einum litlum hópi auðmanna tókst að ná algerum undirtökum í samfélaginu með því að kaupa upp alla fjölmiðla, styrkja stjórnmálaflokka, gera háskólasamfélagið fjárhagslega háð sér o.s.fr. Þeir nýttu sér aðstöðu sína þannig að annar hver íslendingur er nú orðin eignarlaus, og flestir venjulegir atvinnurekendur eru í alvarlegum vanda. Aðeins 15% þjóðarinnar á ekki við greiðsluvanda að etja en Hrunkvöðlarnir eru aðalleikendur í efnahagslífinu ennþá. En hvernig náðu þeir slíkri samþjöppun valds á sínar hendur? Með því að nýta sér í þaula galla sem lengi hafði verið á íslensku lýðræðinu, nefnilega að það var, og er, hægt að kaupa það. Alls staðar þar sem orðið hefur gífurleg samþjöppun valds, t.d. í Rússlandi og Þýskalandi millistríðsáranna byrjaði samþjöppunin á því að einokun varð á upplýsingum, og aðeins einn aðili matreiddi fréttir ofaní fólk. Sama staða var hér á Íslandi; eigendur bankanna áttu svotil alla fjölmiðlana, og eiga reyndar ennþá því Ríkið hefur afskrifað skuldir fjölmiðla þeirra. Íslenskur almenningur borgar fyrir að unnið sé gegn hagsmunum hans. Stundum er sagt að fjölmiðlar séu fjórða aflið á eftir löggjar-, framkvæmda- og dómsvaldi, en er það rétt? Er fjölmiðlavaldið, ef á einni hendi, ekki fyrsta valdið? Með fjölmiðlum er hægt að ráða hvað meirihluti fólks veit og hvað því finnst og þannig ráða hverjir eru kosnir til alþingis, sem aftur ræður framkvæmdavaldinu sem skipar dómara. Dreifing á eignarhaldi fjölmiðla er fjöregg lýðræðisins, alger forsenda þess. Samfélag þar sem einn hagsmunahópur ræður meirihluta fjölmiðla er ekki lýðræðissamfélag. Stóreignamenn er einn hagsmunahópur, ekki margir mismunandi hagsmunahópar, það sást gerlega hversu tengdir allir eigendur bankanna voru hvorir öðrum. Hagsmunir stóreignamanna fara saman. Það er þeirra hagur að stóreignaskattar verði afnumdir, að veðmál (afleiðusamningar, framvirkir samningar) verði áfram leyfðir í bönkunum, að neytendavernd sé ábótavant, að eftirlit sé í lágmarki, að gegnsæi í viðskiptum sé sem minnst, að engin umræða sé í fjölmiðlum um vaxandi misskiptingu auðs o.s.fr. Það eru forréttindi í sjálfu sér að eiga mikinn auð, en það á ekki líka að færa auðmanninum rétt til þess að ráða hvað fólk veit, hvað fólki finnst og hverning almenningur hugsar. Þess vegna verður að festa í stjórnarskrána að engin einn hagsmunahópur á Íslandi geti átt meira en t.d. 25-33% fjölmiðla, og þar af leiðandi að ekki meira en 25-33% af fjölmiðlum geti verið í eign (beinni eða óbeinni) stóreignamanna. Þetta gæti hugsanlega kostað einn eða tvo milljarða fyrst í stað, en nýlega kostaði eignarhald auðmanna á fjölmiðlum þjóðina 10 þúsund milljarða, auk þess eru bankarnir okkar margbúnir að afskrifa svotil alla fjölmiðla á Íslandi, þ.e. almenningur hefur hvort sem er kostað þá. Í Bretlandi er sagt að enginn stjórnmálamaður eigi framtíð fyrir sér ef hann fær Robert Murdock á móti sér, en hann er eigandi allra öflugustu fjölmiðlana í Bretlandi. Bretar börðust fyrir lýðræði kynslóð fram af kynslóð, kostuðu til þess ómældum fórnum og mannslífum, en afkomendur þessarra lýðræðishugsjónamanna finnst allt í lagi að afhenda lýðræðið aftur einum manni, fjölmiðlamógúl. Staðan er svipuð á Íslandi. En hvað með ríkisfjölmiðla? Enn ein leið til þess að kaupa skoðanir áhrifamanna og almennings er gegnum almannatengslafyrirtæki. Er það raunverulegt lýðræði, raunveruleg valddreifing ef auður getur keypt skoðanir almennings og ráðamanna? Er það ekki samþjöppun valds til eignarmanna? Verður ekki að viðurkenna að vald fylgir peningum? Verður valdið ekki að vera gegnsætt í lýðræðisþjóðfélgi? Verðum við ekki að vita hverjir eru að borga fyrir að koma ákveðnum skoðunum á framfæri, hverjir eru að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna og skoðanir almennings gegnum almannatengslafyrirtæki? Því verður að festa í stjórnarskrá að bókhald almannatengslafyrirtækja verði að vera opið. Í læknisfræði verða greinarhöfundar og fyrirlesarar að gefa upp hvort og þá hvernig þeir eru tengdir lyfjafyrirtækjum. Þessu verður líka að koma á varðandi þau fyrirtæki sem vinna að því að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks. Bæði sjónvarpsstöðvar og blöð þurfa sífellt að gefa upp hverjir eigendur eru og hvaða hagsmunum þau tengjast, lesendur eða áhorfendur eiga að sjálfsögðu rétt á að vita það. Æ sér gjöf til gjafar. Eina hlutverk stjórnmálamanna er að gæta hagsmuna almennings, gæta þess að hagsmunum fjöldans verði ekki fórnað fyrir hagsmuni fárra valdamikilla aðila. Það er því alger mótsögn að þessir valdamiklu aðilar geti keypt sér velvild stjórnmálamanna með því að styrkja framboð þeirra. Enn ein aðferðin sem stuðlar að samþjöppun valds á hendur fjársterkra aðila er að leyfa auglýsingar í kosningabaráttum. Það segir sig sjálft að ef mönnum er annt um valddreifingu þá verður að afnema auglýsingar í kosningabaráttum. Styrkir til stjórnmálaflokka eiga að notast til þess að upplýsa almenning, ekki til þess að kaupa föt, hársnyrtingu og auglýsingar. Atvinnurekendur þurfa að eiga greiðan aðgang að ráðamönnum. Þeir þurfa að geta komið sínum skoðunum á framfæri við ráðherra, en þeir eiga ekki að ráða því hver verður ráðherra. Það þarf þó aðathuga að til eru tvenns konar atvinnurekendur, þeir sem eru að skapa verðmæti og þeir sem eru að vinna í að því að ná til sín þeim verðmætum sem þegar hafa verið sköpuð. Þess vegna er rétt að gera greinarmun á atvinnurekendum og fjármálamönnum. Það voru hinir síðarnefndu sem lögðu Ísland í rúst, almenning jafnt sem atvinnurekendur, og ný stjórnarskrá þarf að bregðast við því. Að lokum þetta: Á 17. öldinni hófst merkileg hreyfing sem kölluð var upplýsingastefnan. Frumkvöðlar hennar voru á móti því að almenningi skyldi haldið fáfróðum og að aðeins valdastéttin mætti búa að menntun og þekkingu. Alfræðibækur og upplýsingarit voru prenntuð, almenningur fór að hugsa sjálfstætt um þjóðfélagsmál. Lýðræði fæddist. Lýðræði er eðlilegur fylgifiskur þess að allar upplýsingar liggi fyrir og að opin umræða fari fram. Þessu ferli, upplýsingunni, er hægt að snúa við með því að kaupa upp alla fjölmiðla og ná stjórn á allri umræðu. Þá tekst aftur að telja almenningi trú um að hann eigi ekki rétt á að eiga neitt, að hann eigi að borga skuldir óreiðumanna, að hann eigi að taka á sig veðmál aukýfinga gegn krónunni og borga töpuð veðmál þeirra í bönkunum. Ný stjórnarskrá þarf að standa með upplýsingunni, gegn samþjöppun upplýsingavalds.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.