Sjö óbrigðul ráð til að afstýra kreppu á Íslandi

Ég setti þetta á blað seinnipart janúar, ræddi efnið í Silfri Egils 1. febrúar en ýmislegt hefur breyst síðan, góðu heilli. Komin er ný ríkisstjórn, frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi og ýmist samþykkt eða bíða samþykktar. Dæmi um slíkt er frumvarpið um hópmálsókn sem ég nefni í lið nr. 2. Set þetta engu að síður hér inn til íhugunar.


Skuldir ríkisins eru nær 2.100 milljarðar.  Einhverjar eignir eru bundnar í bönkunum en lágt verð fæst fyrir þær um þessar mundir. Mat AGS virðist því vera nokkuð nærri lagi, að heildarlántökuþörf ríkisins vegna lántökuglæfra og bókhaldsfegrunaraðgerða bankanna (einnig kallað bankahrun) sé um 1.600 milljarðar. Svíar lentu í djúpri bankakreppu 1991 sem þeir eru ekki ennþá búnir að vinna sig almennilega útúr. Heildarkostnaður skattgreiðenda þar var 1.800 milljarðar íslenskra króna (núvirði). Svíar eru u.þ.b 30 sinnum fleiri en Íslendingar, því virðist bankakreppa okkar vera 25 sinnum verri en sænska bankakreppan. Það er vonlaust að íslenskur almenningur sem nú þegar er að kikna undan sínum eigin körfulánum, verðtryggðum ofurvaxtarlánum og atvinnuleysi geti nokkurn tíman borgað þessa skuld fyrir fjárglæframenn sína. En það er engin ástæða til þess að örvænta, það er leið út úr vandanum. Þeir einstaklingar sem komu okkur í þennan vanda eiga nægar eignir til þess að greiða skuldir sínar sjálfir. En þar sem þeir hafa ekki tekið til sín orð ráðamanna um að allir þurfa nú að hjálpast að og sýna samstöðu þá er vandinn bara hvernig hægt er að ná aftur af þeim eigum sem þeir hafa skotið undan. Hér skal bent á nokkrar leiðir:

1.
Þó svo að íslensk fjármálalöggjöf gefi fjárglæframönnum afar frjálsar hendur en neytandanum lítil réttindi þá eru samt lögbrot undanfarinna ára svo stórtæBankark að hægt er að dæma eigendur bankanna eftir hinum hripleku íslensku lögum. Eigendur bankanna stofnuðu félög sem þeir blésu upp gengið á og létu svo lífeyrissjóði í vörslu bankanna, og viðskiptavini í fjármálaráðgjöf, kaupa þessi bréf á yfirverði. Eigendur bankanna veðjuðu öllu sínu fé á að gengi krónunnar myndi falla, en fengu svo lífeyrissjóðina, (sem sumir voru í ráðgjöf hjá bönkunum) til þess að veðja á móti þeim, þ.e. ráðlögðu skjólstæðingum sínum að gera þveröfugt við það sem þeir sjálfir gerðu. Þetta, og margt fleira er ólöglegt og því hægt að endurheimta féð með lögsóknum.

2.
Bæta löggjöfina þannig að léttara verði fyrir einstaklinga að sækja rétt sinn gagnvart fyrri eigendum bankanna. Á Íslandi geta t.d. einstaklingar ekki höfðað sameiginlegt mál gegn bönkunum t.d. fyrir vísvitandi villandi ráðgjöf, heldur þarf hver og einn að fara í mál fyrir sig einan. Þannig er því ekki farið í siðmenntuðum löndum í kringum okkur. Ef fyrirtæki brýtur gegn viðskiptavinum sínum verða þeir sem fyrir brotinu verða sjálfkrafa aðilar að sameiginlegri málshöfðun. Bretland veitir neytendum og smáum hluthöfum góða vernd gegn bellibrögðum þeim sem leyfð eru á Íslandi, hægt er að taka upp bresku löggjöfina hér.

3.
Hinum nýju auðmönnum Íslands tókst að koma skuldum sínum yfir á almenning gegnum ríkisvaldið, og með ríkisvaldinu má aftur ná af þeim fénu. Þjóðin er í algerlega nýrri aðstöðu, hún á að greiða skuldir manna sem ferðast um heiminn á einkaþotum og velta sér upp úr auðæfum. Ekki Lög greypt í steiner óeðlilegt að nýrri löggjöf verði komið á sem bregðist við þessum nýju aðstæðum. Nú er neyðarástand, þá eru sett neyðarlög. Íslensk lög eru ekki greypt í stein af Guði, heldur sett af fulltrúum almennings á Alþingi. Lagasetning er að festa í orð það sem endurspeglar réttlætiskennd þjóðar. Hin nýju lög gætu t.d. hljóðað eitthvað á þessa leið: "Ef ríkissjóður (almenningur) þarf að taka á sig skuldbindingar einkafyrirtækja sem nema meira en x% af VLF þá útleysir það ákveðin réttindi þeirra sem þurfa að greiða það. Fyrningafrestur lengist, banka- og bókhaldsleynd afléttist, og allar færslur sem ljóst mátti vera að hefði veikt stöðu hins gjaldþrota fyrirtækis og aukið skuldir almennings verði látnar ganga til baka eftir því sem við verður komið o.s.frv.".

4.
Útrásarímyndinni var m.a. viðhaldið með þjóðernisrembingi. Nú er búið að æsa íslendinga upp á móti Bretum. En bankamennirnir okkar (studdir af FME, seðlabanka og ráðherrum) fóru nákvæmlega eins með breskan almenning og íslenskan. Bretar eru á alveg sama báti og íslenskur almenningur. Bretar horfa nú agndofa uppá að íslensk stjórnvöld ætla að halda hlífiskildi yfir fjárglæframönnunum og ekki gefa þeim aðgang að þeim. ICESAVE og EDGE deilurnar á að semja um á eftirfarandi hátt: Bretum (og öðrum þjóðum) er veittur ótakmarkaður aðgangur að gögnum íslensku bankanna og veitt öll sú aðstoð sem hægt er til að lögsækja þá fyrir óeðlilegra viðskiptahætti. Það sem að því loknu stendur eftir af skuldinni getur ríkissjóður ábyrgst. Þetta er nauðsynlegt, þar sem íslendingar geta ekki gert þetta sjálfir þar sem nýlega er búið að fækka í starfsliði efnahagsbrotadeildar og þar sem enginn pólitískur vilji er til að fara í þessi mál.

5.
Tölur frá seðlabankanum sýna að bankaútrásin var 2.000 milljarðar í mínus fyrir hrunið, en bankarnir (og ráðherrarnir) sögðu að eiginfjárhagsstaðan væri plús 1000 milljarðar. Einn fremsti upphafsmaður bankaútrásarinnar útskýrði að misENRON - The Smartest Guys in the Roommunurinn, 3.000 miljarðar, væri viðskiptavild og aðrar óefnislegar eigur, "einnig kallað loft". Þetta var viðskiptavild sem smurt var ofan á þá viðskiptavild sem þegar var inn í fyrirtækjunum þegar þau voru keypt. Svona bókfærsla ber keim af ENRON-hneykslinu. Endurskoðendafyrirtæki ENRON, Anderson Consulting, missti allt traust og fór á hausinn þegar kom á daginn hvers konar bókhald það hafði ábyrgst. Hin erlendu móðurfyrirtæki íslensku bankaendurskoðendanna gætu orðið fyrir alvarlegum álitshnekki ef það kæmist í hámæli að þeirra umboðsskrifstofur hefðu skrifað uppá bókhaldsloftfimleika íslensku bankanna og útrásarvíkinganna. Íslendingar ættu að benda móðurfyrirtækjunum á þetta og rétta fram sáttarhönd ef þau fara rækilega í gegnum endurskoðunarvinnu íslensku útibúanna. Þannig myndi fást góð og ókeypis viðbótarrannsókn sem kæmi sér vel í komandi réttarhöldum þar sem féð verður aftur sótt í hendur þeirra sem halda því í dag. Ef hinar erlendu bókhaldsskrifstofur ganga ekki að þessu þá er hætt við að Íslendingar viðri óánægju sína á áberandi erlendum vettvangi.

6.
Til er tvenns konar fjármálastarfsemi í heiminum í dag. Annars vegar þar sem verið er að beina fjármunum til verðmætasköpunar, og hins vegar þar sem hlutabréfum er breytt í spilapeninga og stunduð er veðmálastarfsemi með framvirkum samningum, gjaldeyrisstöðutökum o.s.frv. Hið síðarnefnda er miklu umfangsmeira í dag, skilar aldrei neinni framleiðni og er almenningi aldrei til góðs. Þeir sem búa yfir meiri þekkingu, t.d. eigendur bankanna sem vita hvernig raunveruleg staða er, geta platað þá sem minna vita, t.d. stjórnendur lífeyrissjóða og útvegsfyrirtækja. Þeir menn sem þessa tegund viðskipta stunda eru nefndir "financial predators"eða fjármunarándýr, það eru þeir sem hafa rakað til sín fjármagninu á Íslandi sem ríkissjóður er nú að reyna að útvega annars staðar frá á kostnað skattborgaranna. Fé þessara manna má ná aftur með því t.d. að innleiða 90% skatt á arð af framvirkum samningum og 50% árlegan eignaskatt af eignum tilkomnum af framvirkum samningum o.s.frv.

7.
Það var algerlega skýrt við stofnun sparisjóðanna að þeir ættu ekki að vera gróðafyrirtæki heldur byggjast á hugsjónum, almenningi til hagsbóta. Talið er að heildareignir sparisjóðanna sem auðmenn hafa nýlega stolið af almenningi skipti tugum jafnvel hundruðum milljarða. Þessu fé er sára einfalt að ná tilbaka með lagasetningu ef kosnir eru menn á þing sem hafa vilja til þess að ganga í það verk.

Kæri lesandi,
Íslendingar standa frammi fyrir kreppu sem virðist vera margfalt dýpri en bankakreppurnar sem riðu yfir nágrannalönd vor fyrir 17 árum.  Í finnsku efnahagslægðinni djúpu urðu skuldir ríkissjóðs 60% af VLF en ríkissjóður Íslands skuldar nú 200% af VLF. Íslenskur almenningur er þegar búinn að Peningartapa mestu af lífeyri sínum, búist er við atvinnuleysi og landflótta, fólkið er að sligast undan svimandi háum verðtryggðum vöxtum og myntkörfulánum.  Þetta fólk getur ekki bætt við sig að borga af  þeim 2100 miljörðum sem ríkissjóður skuldar nú (hann var skuldlaus fyrir ári síðan). Lausnin á þessum vanda getur því aðeins verið sú að beita öllum tiltækum ráðum til að ná fjármununum af þeim vellauðugu mönnum sem ollu kreppunni. Við fall bankanna kom í ljós að þeir höfðu veðjað u.þ.b. 700 miljörðum á að gengi íslensku krónunnar myndi falla (sem er sambærilegt við að læknir veðji aleigu sinni á að sjúklingurinn sem hann er að stunda muni verða alvarlega veikur eða drepast).  Ágóði þessa gengisveðmáls gæti orðið u.þ.b. eitt þúsund miljarðar. Það er þetta fé sem þarf að ná aftur; ásamt því fé sem hefur streymt gegnum hina gjaldþrota banka til dótturfyrirtækja fyrrverandi eigenda þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Las þetta tvisvar til að athuga hvort einhvers staðar mætti gagnrýna en fann ekkert.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 08:40

2 identicon

Þetta hljómar rétt og vel og er ég þér í flestu sammála. Vandamálið er eftir sem áður að ég er ekki búinn að greina hverja ætti að kjósa á þing, til að breyta hinu rótgróna klíku kerfi.

Jónatan Karlsson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 10:26

3 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Einu sinni var ég skráð í VG en fékk ógeð á flokkakerfinu og sagði mig úr flokknum.

Síðan þá hef ég skilað auðu í kosningum fyrir utan eitt skipti þegar ég kaus Íslandshreyfinguna.

Ég ætla að gera undantekningu frá þessu í vor og kjósa VG bara vegna þess að þú ert þar.

Það er ekki auðvelt fyrir mig að hrósa fólki þessa dagana og allra síst frambjóðendum flokkanna en þú ert eins og ferskur andblær í allri skítafýlunni

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 14.3.2009 kl. 15:42

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Björn, ég las þetta og á erfitt með að finna eina einustu staðreynd í þessum texta sem er rétt farið með.

Sjá annars fyrri samskipti mín og Andrésar (og fleiri) um svipuð mál, í athugasemdum á bloggi Egils Helgasonar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.3.2009 kl. 19:04

5 identicon

Frábært hjá þér Andrés.

Ég er sammála þinni einlægu réttlætishugsjón sem skín í gegnum skrif þín og greiningu á svikamyllu örfárra auðmannanna og meðhjálpara þeirra. Auðvitað á að sækja fé þeirra sem léku sér með fjöregg landsmanna með vægast sagt vafasömum hætti og mélbrutu það með þeim hætti að það bitnaði á 99,99% landsmanna.

En það eru ýmsir sem eru í sjálfskipaðri þegnskylduvinnu við að tala niður skuldirnar og drepa umræðunni á dreif til að ekki verði gengið eins hart að herrum þeirra eins og allt útlit er fyrir. Þeir myndu sjálfsagt fullyrða að Eva Joly væri með ofsóknarbrjálæði og þjökuð af reynsluleysi.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 19:56

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Torfi, er til of mikils mælst að menn byggi sinn málflutning á staðreyndum, sérstaklega þegar sóst er eftir sæti á Alþingi Íslendinga?

Andrés segir t.d. að hægt sé að sækja 1.000 milljarða til einhverra sem séu að græða á gjaldmiðlasamningum.  Í umræðunni á bloggi Egils sem ég vísa til hér að ofan viðurkennir hann hins vegar að það sé enginn að fara að fá 1.000 milljarða út úr þrotabúum bankanna.  Það er bara staðreynd málsins, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.  Það setur að mér ugg að svona löguðu sé haldið fram gegn betri vitund, hvað sem allri óskhyggju líður, til að afla atkvæða.

Ég hef mína greiningu á því hvað fór hér úrskeiðis og hlífi bankamönnum hvergi í því, sérstaklega ekki stjórnendum Landsbankans, eins og menn geta sannreynt á bloggi mínu.  En munurinn á minni greiningu og öfga-vinstri "örfáir stálu peningunum" kenningunni er sá að ég lít ekki síður til hagstjórnarinnar, Seðlabankans, embættismanna og að sjálfsögðu krónunnar, til að finna rót vandans.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.3.2009 kl. 21:01

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvernig í ósköpunum ferðu að því að álykta að Andrés sé öfgamaður, Vilhjálmur?

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.3.2009 kl. 22:15

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég ályktaði ekki að Andrés væri öfgamaður, Lára, en ég tel að hann aðhyllist það sem ég kalla "öfga-vinstri" kenninguna um ástandið sem t.d. Atli Gíslason og Torfi Hjartarson skrifa einnig undir, að mér sýnist.  Það er kenningin um að hér hafi verið fullt af peningum, sem örfáir menn hafi síðan stolið og flutt til Tortolu, og þar séu þeir núna, og þess vegna hafi hrunið orðið.  Þetta mætti líka kalla "Davíðs-kenninguna" því hún leysir Davíð undan ábyrgð en gerir þá sem honum líkar verst við að persónulegum skúrkum.  Það er raunar dálítið hlægilegt að það er einkum VG fólk sem kaupir þessa söguskýringu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.3.2009 kl. 23:06

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þá hefurðu ekki lesið eða heyrt mikið af málflutningi Andrésar, Vilhjálmur. Hann hefur bæði talað og skrifað um fleiri hliðar á hruninu s.s. þátt Seðlabankans, vaxtastefnunnar, krónunnar o.fl.

Ég held að enginn sé svo grunnhygginn að halda að eitthvað eitt (eða einhver einn) hafi valdið efnahagshruninu. Fólk gerir sér almennt grein fyrir að um er að ræða samspil ýmissa þátta og að þræðirnir séu margir og liggi víða.

Þótt fólk taki einn og einn þátt fyrir í einu og fjalli um hann er ekki þar með sagt að það fjalli ekki líka um hina. Það hefur Andrés einmitt gert... og reyndar Atli líka.

Mér finnst mjög góð aðferð að fjalla um og skýra einn þátt í einu og tengja þá svo saman og sýna fram á samspilið þegar einstakir hlutir hafa verið útskýrðir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.3.2009 kl. 23:57

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Lára, ég held að við séum að mörgu leyti sammála.  En mér finnst áherslan á örfáa einstaklinga sem hafi stolið peningunum vera einhvern veginn of ódýr, of einföld og of þægileg fyrir ýmsa.  Ég bendi að hagfræðingar á borð við Buiter, Sibert, Jón Daníelsson og Gylfa Zoega hafa í sinni greiningu útskýrt hrunið prýðilega á hagfræðilegum og hagstjórnarlegum forsendum einum saman; það þurfti ekki svindlið til, þótt það hafi vitaskuld ekki hjálpað.

Ég hef séð Andrés í Silfri Egils, lesið ræðu hans frá Austurvelli og skrif á bloggi Egils, og sýnst greiningin og áherslan vera nánast öll í hinum fyrri, einfalda farvegi.  Og þegar hrært er út í þetta ýktum tölum um skuldir ríkissjóðs og óraunhæfum væntingum um þúsundir milljarða sem sitji einhvers staðar og bíði eftir að vera sóttir, þá er það orðið röngu megin við landamæri málefnalegrar umræðu og skrums.

Ég vil vera jafn gagnrýninn á það sem mér finnst rangt frá hægri mönnum og vinstri; ógn við lýðræðislegt og siðað mannréttindasamfélag getur komið úr báðum áttum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 15.3.2009 kl. 00:23

11 identicon

Mér sýnist Andrés hafa mun meiri skilning á eðli fjármálkreppunnar en ýmsir talnaspekingar.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband